Fróðleikur
Image

Hjálpaðu foreldrunum að verða betri hlustendur

Auðveldasta leiðin til að bregðast við heyrnartapi blasir við; fara í heyrnarmat og þaðan er brautin greið. En dokum aðeins við, þetta snýst ekki um þig. Þetta snýst um foreldra þína eða einhvern sem þér er annt um. Kannski ertu búinn að reyna að koma þessu í kring, en samt ertu að lesa þetta og kannski að leita að svari. Lestu í nokkrar mínútur í viðbót. Kannski getum við orðið að liði.


Hvernig get ég verið viss um að þetta sé heyrnartap?

Það er ekki hægt að vera alveg viss um hversu mikið heyrnartapið er fyrr en sérfræðingur hefur metið það. Af einhverjum ástæðum virðist margir skammast sín fyrir að mögulega séu þeir farnir að tapa heyrn. Að fá foreldra eða einhvern annan nákominn til að fara í heyrnarmælingu getur stundum reynst erfitt. (Þó heyrnarmæling sé ekkert öðruvísi en sjónmæling, til að meta hvort viðkomandi þurfi að nota gleraugu. Fólk eldist og líkaminn breytist, það er eðlilegt). Þetta snýst um að auka lífsgæði einhvers sem þér er annt um. Ef þú hefur grun um að einhver þér nákominn sé farinn að tapa heyrn reyndu þá að veita athygli því helsta sem venjulega er merki um heyrnartap.

1. Viðkomandi virðist eiga í vandræðum með símtöl og vill helst slíta símtalinu sem fyrst.
2. Viðkomandi forðast samtöl, jafnvel við fjölskylduna.
3. Viðkomandi svarar með skrítnum svörum.
4. Viðkomandi er erfiðari í skapi og pirraðari en áður, eða jafnvel þungur og dapur.
5. Viðkomandi virðist leggja sig fram um að horfa vandlega á andlit þess sem er að tala.
6. Viðkomandi blandar sjaldnar geði við vini og fjölskyldu.


Allt í lagi, allt bendir til þess. En hvernig er hægt að fá viðkomandi til að gera eitthvað í þessu?

Þrennt er gott að hafa í huga: Skilning, þolinmæði og ákveðni. Ef viðkomandi vill ekki einu sinni heyra á það minnst að hann geti verið farinn að tapa heyrn, hvað þá að heyrnartæki komi til greina þá borgar sig ekki að reyna að taka af honum völdin. Það mun ekki hjálpa, þó viðkomandi þurfi vissulega á hjálp að halda. Til að byrja með er gott að reyna að skapa kjöraðstæður til að ræða betur við viðkomandi. Æskilegt er að góður tími sé til stefnu og að valinn sé staður þar sem er kyrrt og ekkert utanaðkomandi áreiti. Heyrnarörðugleikar ágerast gjarnan þegar bakgrunnshljóð blandast samtali og þess vegna er best að hafa þetta tveggja manna tal. Heyrnarskertir heyra mun betur það sem sagt er ef þeir þurfa ekki að hlusta á margar raddir úr mismunandi áttum. Varast ber að dæma og reyna fremur að lýsa áhyggjum en að ásaka. Talið um það sem þið hafið tekið eftir sem gæti bent til heyrnartaps og gefið gott ráðrúm til að tala um þetta allt. Minnist á allt það sem maður fer á mis við: Sögur barnabarnanna, máltíðir með fjölskyldunni, sjávarnið og hljóðið þegar rigningin bylur á þakinu.


Sjávarniður í fjörunni kannski, en er ekki líka aukin slysahætta?

Það er ágætt að benda líka á aukna slysahættu. Hún er vissulega til staðar, sérstaklega undir stýri. Ef að viðkomandi heyrir ekki þegar barið er að dyrum eða heyrir ekki í dyrabjöllu gæti orðið erfitt að láta vita ef eldur kæmi upp. Það dregur úr öryggi gangandi vegfaranda ef hann heyrir ekki í aðvífandi bíl.

Það er ákveðið ferli að fá fólk til að sætta sig við að það þurfi að gera eitthvað til að fá bót á heyrnartapi sínu og það getur tekið sinn tíma. Viðkomandi þarf að taka ákvörðun sjálfur, ekki bara að láta undan þrýstingi. Munið: Skilningur. Þolinmæði. Ákveðni.


Pabbi hefur áhyggjur af því að hann sé ellilegur. Er það ekki eðlilegt?

Það ríkir æskudýrkun í heiminum, það er ómdeilt. Góðu fréttirnar eru þær að vegna stafrænnar tækni hefur tekist að minnka heyrnartæki verulega. Þeir sem hafa áhyggjur af að virðast ellilegir þurfa ekki að hafa áhyggjur af stærð heyrnartækjanna, því þau falla fullkomlega inn í eyrað og sjást aðeins af stuttu færi. Þeir sem eiga við mjög mikið heyrnartap að stríða þurfa þó stærri heyrnartæki, en þá gæti maður spurt: Hvort er ellilegra, að vera með heyrnartæki eða svara spurningum út í hött vegna þess að maður misheyrði spurninguna?


Mamma segir að þau hafi ekki efni á að kaupa heyrnartæki og mér skilst að þau geti verið dýr. Hvað er til ráða?

Þetta er fjárfesting sem skilar arði til ástvina, þar á meðal þín, í mörg ár. Mundu líka að við lánum heyrnartæki til prufu. Það getur hjálpað við ákvörðunartöku um kaup á heyrnartæki.


Hvað ef pabbi er ekki sáttur við heyrnartækin þegar hann er kominn með þau? Þýðir það að hann hafi sóað peningunum?

Ef eitthvað virðist ekki vera í lagi er rétt að hafa í huga að líklega er þar á ferðinni eitthvað smávægilegt sem auðvelt er að laga. Í fyrsta lagi: Það tekur tíma að venjast heyrnartæki. Flestir reyna að venjast þeim með því að nota þau stutt í einu til að byrja með, jafnvel ekki meira en 15 mínútur í senn, og lengja svo tímann smám saman. Þetta er ekki ólikt því þegar fólk er að venjast augnlinsum. Heyrnartækjasérfræðingurinn mun útbúa áætlun til að fylgja. Í öðru lagi: Mörg vandamál er auðvelt að laga með því að láta sérfræðinginn fínstilla tækið og jafnvel þótt að í sumum tilvikum þurfi að skilja tækið eftir hjá sérfræðingnum er það í flestum tilvikum tilbúið innan þriggja daga. Að lokum er rétt að geta þess að til eru margar og óiíkar gerðir heyrnartækja og þess vegna er brýnt að vanda valið og velja það tæki sem best hentar í samráði við heyrnartækjasérfræðinginn. Munið að skilningur, þolinmæði og ákveðni skilar árangri bæði hjá þér og ástvinum þínum.


Hikaðu ekki við að spyrja
Mundu að við erum hér til að aðstoða þig og svara öllum þeim spurningum sem geta komið upp varðandi heyrnarskerðingu og heyrnartap – og benda á þau úrræði sem eru í boði. Þú getur sett þig í samband við okkur í síma 568 7777 eða sent okkur línu og við hjálpum þér eftir fremsta megni.

Tímapantanir

Heyrnarstöðin | Kringlunni 4-12 |. Sími 568 7777 | heyra@heyra.is | Tímapantanir virka daga frá kl. 9-17

Search

+880 322448500 Beverly Boulevard Los Angeles